Alfreð er staddur hér á landi að kenna á MasterCoach-námskeiði þar sem margir fremstu þjálfarar landsins freista þess að læra af honum í handboltafræðunum.
„Þetta er bara mjög gaman, rosalega gaman að koma inn hjá HSÍ í svona námskeið þar sem maður þekkir svo marga. Þetta eru margir fyrrverandi leikmenn mínir og svo framvegis. Þetta er frábært, einstaklega gaman að hitta þá alla, þetta er svona nánast eins og fjölskyldufundur bara,“ segir Alfreð.
Alfreð hefur verið landsliðsþjálfari Þýskalands frá árinu 2020 og á tvö ár eftir af samningi sínum. Hann kveðst ætla að klára EM 2024, sem Þjóðverjar halda, og þá sé möguleiki á Ólympíuleikum það ár líka.
Að því loknu þurfi hann að skoða sín mál og segir hann koma til greina að starfa á Íslandi að samningnum loknum.
„Það hefur nú komið til greina og allt það, en ég ákvað í fyrra að bíða aðeins með það að taka ákvörðun um það. Ég er náttúrulega mjög bundinn Íslandi og fylgist vel með. Það er mér líka mikilvægt hvernig gengur í íslenska handboltanum,“ segir Alfreð.
„En eins og er, er ég með samning við þýska landsliðið til 2024, árið sem EM er heima og sama ár eru líka Ólympíuleikar ef við skyldum ná að koma okkur þangað. Þá verð ég bara að gera upp hug minn um hvað ég geri þar og ef ég verð kominn með sterkt lið af ungum leikmönnum sem er ekki alveg farnir að ýja að því að hætta þá veit ég ekkert hvað maður gerir,“
„Ísland er náttúrulega alltaf mitt heimaland og ég kvíði því einna mest að vera þjálfari á móti Íslandi.“ segir Alfreð.
Ummæli Alfreðs má sjá í spilaranum að ofan.