Fótbolti

Fyrrum fyrir­liði Rússa gagn­rýnir stríðið í Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Igor Denisov er hann var leikmaður Lokomotiv Moskvu.
Igor Denisov er hann var leikmaður Lokomotiv Moskvu. EPA-EFE/PAULO NOVAIS

Hinn 38 ára gamli Igor Denisov – fyrrverandi fyrirliði rússneska landsliðsins í fótbolta – hefur gagnrýnt innrás Rússa í Úkraínu og lýst stríðinu sem katastrófu. Denisov ákvað að mótmæla stríðinu opinberlega þó hann óttist að vera fangelsaður eða tekinn af lífi fyrir ummæli sín.

„Atburðirnir í Úkraínu eru alger katastrófa. Þetta er skelfilegt. Ég er ekki viss hvort ég verði settur í fangelsi eða tekinn af lífi fyrir að segja þetta en svona er þetta,“ sagði Denisov í viðtali sem birtist á The Guardian.

Denisov lagði skóna á hilluna árið 2019 eftir að hafa spilað allan sinn feril í Rússlandi. Hann var fyrirliði landsliðsins um fjögurra ára skeið, frá 2012 til 2016. Denisov segist hafa skrifað Vladimír Pútín bréf þar sem hann biður hann um að hætta innrásinni sem hefur kostað fjölda manns lífið og lagt Úkraínu í rúst.

Nýverið samþykkti rússneska þingið lagasetningu þess efnis að allir sem dreifa opinberlega „fölskum orðrómum“ tengdum stríðinu og stríðsrekstri Rússlands gætu átt yfir höfði sér allt að 15 ár í fangelsi.

Rússnesk landslið og félagslið hafa verið bönnuð frá keppnum á vegum FIFA og UEFA sökum innrásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×