Þegar hagfræðideild Landsbankans birti þjóðhagsspá sína í maí gerði hún ráð fyrir að stýrivextir myndu hækka um 0,5 prósent og er því um að ræða umtalsverða hækkun á stuttum tíma. Vísað er til þess að verðbólguhorfur hafi nú versnað, nýlegar tölur sýni mikinn hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi og gögn um innlenda kortaveltu sýni að eftirspurnarþrýstingur sé mikill.
Fari stýrivextir upp í 4,5 prósent síðar í mánuðinum, líkt og gert er ráð fyrir, verða þeir orðnir jafnháir og þeir voru áður en peningastefnunefnd Seðlabankans hóf að lækka vexti árið 2019.
Þrátt fyrir umtalsverðar stýrivaxtahækkanir síðustu misseri eru raunstýrivextir áfram neikvæðir. Greining Íslandsbanka telur líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé hvergi nærri lokið enda vilji bankinn trúlega koma raunstýrivöxtum yfir núllið fyrr en seinna.
„Trúlega mun bankinn vilja stíga fast til jarðar því ef brugðist er of seint við gæti þurft að hækka vexti meira en ella. Það veltur svo ekki síst á því hvort, og þá hversu mikið, aðrir hagstjórnaraðilar á borð við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar leggja hönd á plóg við að minnka verðbólguþrýsting á komandi misserum hversu hátt stýrivextirnir fara áður en yfir líkur í yfirstandandi vaxtahækkunarferli.“
Versnandi verðbólguhorfur styðji við ákvörðunina
„Við teljum líklegt að nefndin muni ræða 0,5-1,0 prósentustiga hækkun vaxta, en á síðasta fundi var rætt um 0,75-1,0 prósentustiga hækkun. Nefndin var þá einróma í þeirri ákvörðun að hækka vextina um 1,0 prósentustig og gaf jafnframt til kynna að vextir yrðu einnig hækkaðir næst. Að þessu sinni teljum við líklegast að hækkun um 0,75 prósentustig verði niðurstaðan, sem er vissulega stórt skref þó það sé ekki jafn stórt og síðast,“ segir í spá Landsbankans.
Versnandi verðbólguhorfur styðji við ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti en í nýjustu verðbólguspá er gert ráð fyrir því að verðbólgan verði 8,7 prósent í júní.
Fréttin hefur verið uppfærð til að bæta við umfjöllun um nýja spá Greiningar Íslandsbanka.