Fréttir

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld.
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld. Vísir/arnar

Orkuveita Reykjavíkur þarf að greiða Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni hjá fyrirtækinu, skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar, samkvæmt nýföllnum dómi Landsréttar. Áslaug fagnar málalokum. Við ræðum við framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 en fyrirtækið hyggst una niðurstöðunni.

Alvarleg veikindi vegna Covid hafa aukist talsvert síðustu daga. Yfirlæknir á Landspítala segir stöðuna afleita. Tíminn muni leiða í ljós hvort þörf sé á aðgerðum í samfélaginu.

Þá fjöllum við um að Alvotech, líftæknifyrirtæki Róberts Wessmann var í dag skráð á markað í Bandaríkjunum aðeins tíu árum eftir stofnun. Þá er fyrsta lyf fyrirtækisins nú komið í dreifingu í Kanada og Evrópu eftir að dómssátt náðist við annað lyfjafyrirtæki varðandi leyfismál. Búist er við að fyrirtækið skili hagnaði á næsta ári.

Við segjum einnig frá stærstu breytingu á áfengislögum frá því að bjórbanninu var aflétt að mati ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var í gær. Bruggarar eru himinlifandi með áfangann en vona að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í átt að frjálsum áfengismarkaði á Íslandi.

Þá verðum við í beinni frá fjöldasjósundi í Nauthólsvík og Magnús Hlynur sýnir okkur magnaða kertaframleiðslu á Ísafirði. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×