Fótbolti

Ís­land upp um eitt sæti á heims­listanum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur borið fyrirliðaband Íslands að undanförnu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur borið fyrirliðaband Íslands að undanförnu. Oliver Hardt/Getty Images

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 17. sæti á heimslista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA. Listinn var uppfærður í dag og fer Ísland upp um eitt sæti.

Listinn var síðast uppfærður í mars en síðan þá hefur Ísland unnið tvo sigra í undankeppni HM sem fram fer á næsta ári í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Ísland vann Hvíta-Rússland sannfærandi 5-0 og svo Tékkland naumlega með vafasömu marki.

Staða toppliðanna þriggja er óbreytt. Bandaríkin eru sem fyrr á toppnum, Svíþjóð í öðru sæti og Frakkland – sem er með Íslandi í riðli á EM – er í þriðja sæti.

Holland – sem er með Íslandi í riðli í undankeppni HM – fer upp í 4. sætið á kostnað Þýskalands sem situr nú í 5. sæti.

Ásamt Íslandi og Frakklandi eru Ítalía (14. sæti) og Belgía (19. sæti) með Íslandi í riðli á Evrópumótinu sem fram fer í Englandi í sumar. Sjá má listann í heild sinni á vef FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×