Innlent

Kamila og Marco valin Reykvíkingar ársins

Árni Sæberg skrifar
Kamila Walij­ewska og Marco Pizzolato eru Reykvíkingar ársins 2022. Þau komu upp svokölluðum frískáp við Bergþórugötu 20.
Kamila Walij­ewska og Marco Pizzolato eru Reykvíkingar ársins 2022. Þau komu upp svokölluðum frískáp við Bergþórugötu 20. Vísir/Fanndís

Vinirnir Kamila Walij­ewska og Marco Pizzolato eru Reykvíkingar ársins 2022. Formaður borgarráðs tilkynnti valið við opnun Elliðaána í morgun áður en þeim Kamilu og Marco var boðið að renna fyrir laxi.

Kamila og Marco settu upp svokallaðan frískáp við Bergþórugötu 20 en það er ísskápur þar sem fólk getur skilið eftir eða tekið mat. Tilgangurinn er að sporna gegn matarsóun og byggja upp sterkara samfélag í kringum það að deila umframmat í gegnum frískápa.

Rætt var við Kamilu og Marco í kvöldfréttum Stöðvar 2 í byrjun árs:

„Hver sem er getur komið. Hver sem er getur komið með mat sem hann ætlar kannski ekki að nota. Maturinn er heima og það er hægt að koma með hann hingað og ef fólk sér eitthvað gott getur það tekið það heim, þetta eru svona skipti,“ sagði Kamila.

Síðan þau komu upp fyrsta frískápnum hafa nokkrir aðrir sprottið upp í borginni og víðar, til að mynda á Höfn í Hornafirði.

Verkefnið bar vænan ávöxt í morgun þegar Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, tilkynnti að þau Kamila og Marco hafi verið útnefnd Reykvíkingar ársins 2022.

Einar Þorsteinsson renndi fyrir laxi eftir að hafa tilkynnt Reykvíkinga ársins. Þegar fréttamaður fór af vettvangi hafði ekkert bitið á agnið enn.Vísir/Fanndís



Fleiri fréttir

Sjá meira


×