Íslenski boltinn

KV kveður Sigur­vin sem verður að­stoðar­þjálfari Eiðs Smára hjá FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurvin Ólafsson mun færa sig um set í Bestu deildinni.
Sigurvin Ólafsson mun færa sig um set í Bestu deildinni. Hilmar Þór Norðfjörð

Sigurvin Ólafsson mun hætta sem aðalþjálfari KV í Lengjudeild karla í fótbolta og sem aðstoðarþjálfari KR í Bestu deild karla til að taka við starfi aðstoðarþjálfara FH sem leikur í sömu deild og KR.

KV kvaddi Sigurvin formlega á Twitter-síðu sinni í dag en undir hans stjórn hefur félagið náð eftirtektarverðum árangri og leikur í dag í Lengjudeildinni þrátt fyrir að vera ekki með einn leikmann á launaskrá.

Sigurvin mun stýra liðinu á miðvikudag er KV mætir Þrótti Vogum í sannkölluðum sex stiga leik en bæði lið eru í fallsæti í Lengjudeildinni. Að leik loknum mun hann láta formlega af störfum. Félagið hefur þó þegar hafið leit að arftaka Sigurvins í Vesturbænum.

„Knattspyrnudeild KR og Sigurvin Ólafsson hafa komist að samkomulagi um starfslok. Sigurvin óskaði eftir því að láta af störfum og féllst deildin á beiðni hans,“ segir í yfirlýsingu KR.

Hinn 45 ára gamli Sigurvin gerði það einkar gott sem leikmaður hér á landi og varð til að mynda fimm sinnum Íslandsmeistari áður en hann sneri sér að þjálfun. Þá lék hann sjö A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Hann hefur sinnt starfi aðstoðarþjálfara KR síðan í mars á síðasta ári en áður hafði hann þjálfað yngri flokka félagsins sem og KV. Tók hann við af Bjarna Guðjónssyni sem færði sig um tíma til Svíþjóðar en er í dag framkvæmdastjóri KR ásamt því að hafa verið á skýrslu að undanförnu sem aðstoðarþjálfari liðsins.

Í gær heyrðust fregnir af því að Sigurvin myndi aðstoða Eið Smára Guðjohnsen sem væri í þann mund að taka við Bestu deildarliði FH. Í gærkvöld var svo ráðning Eiðs Smára staðfest og nú er ljóst að Sigurvin mun fylgja honum.

Sigurvin lék með FH við góðan orðstír frá 2005 til 2008. Varð hann bæði Íslands og bikarmeistari á tíma sínum í Hafnafirði.

FH er sem stendur í 9. sæti Bestu deildar karla með 8 stig að loknum 9 umferðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×