Umsátrið hófst eftir að tilkynning barst um skothvelli við fjölbýlishús við Miðvang í Hafnarfirði á áttunda tímanum í morgun. Íbúi í blokk við Miðvang 41 var grunaður um að skjóta á kyrrstæðan bíl á bílastæði gegnt leikskólanum Víðivöllum. Lögreglan segir nú að maðurinn hafi skotið á tvo bíla.
Fjölmennt lið sérsveitarmanna var sent á staðinn ásamt dróna og vélmenni sem var notað við aðgerð lögreglu. Lögreglumenn voru í símasambandi við manninn frá því um átta leytið en í millitíðinni var íbúum í blokkinni og nærliggjandi húsum bannað að yfirgefa heimili sín.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að maðurinn hafi sjálfviljugur gefið sig fram um klukkan 12:20.
„Samningaviðræðurnar tókust. Hann var handtekinn í framhaldinu og er verið að flytja hann á lögreglustöð.“
Skúli segir að nú taki við rannsóknarvinna á vettvangi.
„Búið er að taka lokunina af hérna í Miðvanginum og vettvangsvinna að hefjast.“
Hann segir að aðgerðin hafi í tekist vel. „Þetta tekur sinn tíma, svona samningaviðræður. Maður er bara guðslifandi feginn að enginn hafi slasast í þessu útkalli.“
Ekki er vitað til þess að nokkur tengsl séu á milli byssumannsins og bílsins sem hann skaut á.
Fréttin hefur verið uppfærð.