„Ég er búin að vera semja tónlist fyrir sjónvarpsþætti í nokkur ár og þá oftast fyrir fyrirtæki sem vinnur mikið fyrir raunveruleikasjónvarp. Ég geri mest af því efni sem ég sem fyrir sjónvarp með pródúser í LA sem heitir Tal Meltzer. Þetta fyrirtæki hefur reglulega pantað frá okkur nokkur lög fyrir þætti sem þeir eru að sjá um,“ segir Klara og bætir við að verkefnin séu sannarlega fjölbreytt. „Ég hef átt lög í Selling Sunset, Queer Eye For The Straight Guy, Love Island, NFL play-offs bara til að nefna einhverja. Svo nýlega tóku þeir við Kardashians þáttunum og eru búnir að vera að velja lög sem ég hef samið og er reyndar líka að syngja.“
Aðspurð hvernig tilfinningin sé að heyra rödd sína í svona vinsælum þáttum segir Klara:
„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Þetta er náttúrulega einn vinsælasti raunveruleikaþáttur í heimi og meira að segja ég hef horft á einn og einn þátt.“
Hún segir að það sé óvanalegt fyrir hana. „Ég horfi nefnilega ekki á neina raunveruleikaþætti sjálf svo til að sjá lögin mín í þessum þáttum bíð ég eftir að fá senda upptöku frá umboðsmanninum mínum sem er forfallinn raunveruleikaþátta nörd,“ segir Klara og hlær. Hún bætir við að þættirnir fari ekkert fram hjá manni þó maður fylgist kannski ekki með allri seríunni.
En hefur þú einhvern tíma hitt Kardashian meðlim?
„Ég hitti einu sinni Kim í veislu fyrir ESPY awards sem var haldið í Playboy mansion fyrir mörgum árum síðan. Ég spjallaði vissulega ekkert við hana meira en að heilsast ef ég man rétt.“
Að lokum er það stóra spurningin. Hver er uppáhalds Kardashian/Jenner meðlimurinn þinn?
„Ég held að Kris Jenner hljóti að hafa endurskilgreint merkingu þess að búa til sítrónusafa úr sítrónum. Mér finnst hún geggjuð. Hún er eldklár og hugrökk og eftir því sem ég get séð tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir stelpurnar sínar.“