Innlent

Vélar­vana bátur dreginn í höfn á Drangs­nesi

Árni Sæberg skrifar
Áhöfn þyrlunnar fylgdist grannt með björgunaraðgerðum úr landi.
Áhöfn þyrlunnar fylgdist grannt með björgunaraðgerðum úr landi. Landhelgisgæsla Íslands

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust upplýsingar um vélarvana bát norðan við Drangsnes á Ströndum um hádegisbil í dag. Nálægum fiskibát tókst að draga bátinn í land með aðstoð stýrimanns þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Bátinn hafði tekið að reka að landi en skipsverjum tókst að stöðva rekann með því að setja út akkeri, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Nálægur fiskibátur, Benni ST, hélt þegar til aðstoðar en að auki óskaði Landhelgisgæslan eftir aðstoð björgunarsveita á Hólmavík og Drangsnesi sem sendu björgunarbáta af stað til aðstoðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem var við æfingar í Húnaflóa, var einnig send á vettvang.

Skipstjóri Benna ST var einn um borð og því var stýrimaður þyrlunnar sendur honum til aðstoðar við björgunina. 

Dráttataug var sett á milli bátanna og tókst Benna ST að draga vélarvana bátinn á frían sjó. Þar var stýrimaður þyrlunnar hífður aftur um borð í þyrluna en Benni ST hélt með vélarvana bátinn til hafnar á Drangsnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×