Hinn 25 ára gamli De Jong hefur verið þrálátlega orðaður við Manchester United í nær allt sumar. Enska félagið hefur boðið ítrekað í leikmanninn en alltaf vill Barcelona hærra verð.
Talið er að Barcelona þurfi að selja leikmann eða leikmenn til að geta fengið nýja inn og einfaldlega skráð þá leikmenn til leiks sem félagið hefur sótt á frjálsri sölu. Þar má nefna miðvörðinn Andreas Christensen og miðjumanninn Franck Kessié.
Það kom því á óvart hversu vel Börsungar stóðu í lappirnar er Man United bauð í hollenska miðjumanninn sem virðist þó aldrei hafa viljað yfirgefa Katalóníu.
Nú hafa nýjar upplýsingar komið á yfirborðið en De Jong á inni rúmlega 17 milljónir punda vegna vangoldinna launa og bónusgreiðslna sem aldrei voru borgaðar, samsvarar það tæpum þremur milljörðum íslenskra króna.
Upphaflega samþykkti De Jong að fresta þessum greiðslum vegna Covid-19 en nú þegar Barcelona er farið að sækja leikmenn í gríð og erg vill hann líklega fá borgað.
Hvort, hvernig og hvenær það mun gerast kemur í ljós en eflaust á eftir að skrifa nokkrar blaðsíður til viðbótar í sögunni endalausu um Frenkie de Jong og Manchester United.