Erlent

Hefur á­hyggjur af sam­fylkingu Rússa og Kín­verja

Bjarki Sigurðsson skrifar
Antony Blinken (t.h.), utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ásamt kínverska kollega sínum Wang Yi.
Antony Blinken (t.h.), utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ásamt kínverska kollega sínum Wang Yi. AP/Stefani Reynolds

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist hafa áhyggjur af nánu sambandi Rússa og Kínverja. Hann átti fimm tíma fund með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, í Indónesíu í gær.

Ráðherrarnir voru að ræða saman í fyrsta sinn síðan í október á síðasta ári en á fundi sínum ræddi Blinken um áhyggjur sínar af sambandi Rússa og Kínverja. Að sögn Blinken gekk fundurinn vel.

„Við ræddum mjög opinskátt um hvað skilur okkur að, en fundurinn var einnig uppbyggjandi þrátt fyrir mikla hreinskilni,“ hefur CNN eftir fulltrúa frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Blinken hefur neitað að funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en hann er einnig í Indónesíu þessa dagana. Ráðherrarnir eru allir þar á ráðstefnu G20-ríkjanna.

Xi Jinping, forseti Kína, og Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ræddu saman símleiðis nýlega og sagði Jinping að hann vildi að þjóðirnar myndu stofna bandalag. Bandaríkjamenn hafa varað Kínverja við því að aðstoða Rússa í stríði sínu við Úkraínu og ætla að setja á refsiaðgerðir gegn þeim skyldu þeir senda vopn eða önnur hergögn til Rússlands.


Tengdar fréttir

Vilja ekki nýtt kalt stríð við Kínverja

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjamenn ekki vilja nýtt kalt stríð við Kína og þeir muni ekki standa í vegi aukins hagvaxtar ríkisins. Þetta sagði Blinken í ræðu sem hann flutti í gær um afstöðu Bandaríkjanna gagnvart Kína og sagði hann að þó stríðið í Úkraínu væri stærsta ógn við stöðugleika í heiminum til skamms tíma, stafaði Bandaríkjunum meiri ógn af Kína.

Rússar halda áfram að kenna öðrum um innrásina

Á sama tíma og Rússar leggja undir sig gífurlegar olíu- og gasauðlindir Úkraínu á Donbas svæðinu sem gætu farið langt með að svara orkuþörf Evrópu, halda þeir áfram að kenna Bandaríkjunum og NATO um þeirra eigin innrás í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×