Enski boltinn

Talið að De Jong sé til­búinn að fara til Manchester fái hann launin sín greidd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frenkie de Jong virðist vera tilbúinn að skipta út Katalóníu fyrir Manchester.
Frenkie de Jong virðist vera tilbúinn að skipta út Katalóníu fyrir Manchester. EPA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Áfram ríkir alger pattstaða varðandi stöðu Frenkie de Jong en Manchester United telur sig hafa fengið staðfestingu á því að leikmaðurinn sé tilbúinn að ganga í raðir liðsins þegar hann hafi fengið öll sín laun greidd hjá Barcelona.

Félagaskiptasaga sumarsins er að þessu sinni Frenkie de Jong, miðjumaður Barcelona og hollenska landsliðsins, og Manchester United. Erik ten Hag, nýráðinn þjálfari Man United, hefur ekkert farið í grafgötur með ást sína á Frenkie en þeir unnu saman hjá Ajax áður en Barcelona keypti hann á dágóða summu sumarið 2019.

Í síðustu viku kom í ljós að De Jong á inni dágóða summu hjá Barcelona þar sem félagið gat ekki borgað öll hans laun á meðan kórónufaraldurinn geysaði sem hæst. Þá hefur sú saga gengið um netheima að Barca vilji halda leikmanninum en aðeins ef hann skrifar undir nýjan samning á lægri launum.

Samkvæmt heimildum The Telegraph telur Man United sig hafa fengið staðfestingu á því að De Jong mæti til Manchester-borgar fari svo að hann fái launin sín greidd í Katalóníu. Virðist sem Ten Hag sé tilbúinn að sleppa því að fjárfesta í djúpum miðjumanni í sumar þar sem hann trúir því að Frenkie verði leikmaður liðsins áður en langt um líður.

Man United vantar sárlega djúpan miðjumann og hefur verið orðað við Lisandro Martinez, leikmann sem Ten Hag þekkir vel en hann lék undir hans stjórn hjá Ajax.

Sem stendur er vinstri bakvörðurinn Tyrell Malacia eini leikmaðurinn sem Man Utd hefur fengi í sínar raðir í sumar en búist er við að Christian Eriksen skrifi undir í vikunni. Danski miðjumaðurinn þarf að undirgangast töluvert strangari læknisrannsókn en aðrir leikmenn eftir atvikið á EM 2020.

Gangi það ekki eftir gæti farið svo að Tyrell Malacia verði einu kaup félagsins í sumar en áður en hann var látinn fara sagði Ralf Rangnick – þjálfari Man Utd á síðustu leiktíð – að félagið þyrfti að lágmarki 4-5 nýja leikmenn í sumar. Það virðist ekki ætla að ganga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×