Erlent

Kallar eftir samstöðu og vill ná markmiðum Abe

Samúel Karl Ólason skrifar
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans. AP/Rodrigo Reyes

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, kallaði í morgun eftir samstöðu og pólitískum stöðugleika í kjölfar kosninga og morðs Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra. Frjálslyndir Demókratar (LDP), flokkur Kishida og Abe báru sigur úr bítum í kosningunum sem haldnar voru í Japan í gær.

Með ríkisstjórnarflokknum Komeito eru þeir með meirihluta í báðum deildum þingsins og gætu mögulega náð fram stjórnarskrárbreytingum sem snúa meðal annars að því að fella niður takmarkanir á herafla Japans.

Eins og fram kemur í frétt Reuters eru þrjú ár í næstu kosningar í Japan og Kishida er því með nokkuð mikinn tíma til að ná markmiðum sínum og tryggja framgöngu stefnumála sinna.

Forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi í morgun að hann myndi taka upp mál sem Abe hefði ekki náð að klára, eins og það að gera breytingar á stjórnarskrá Japans.

AP fréttaveitan segir að tveir stjórnarandstöðuflokkar séu hlynntir breytingum á stjórnarskránni og með stuðningi þeirra hafi Kishida tvo þriðju þingmanna með sér í liði í báðum deildum þingsins.

Ráðamenn í Japan hafa á undanförnum árum ítrekað lýst yfir áhyggjum af auknum umsvifum Kína í Asíu og Kyrrahafinu og vopnatilraunum í Norður-Kóreu. Japanir hafa gert varnarsáttmála við bæði Ástrala og Bandaríkjamenn og hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar, geri Kína innrás í eyríkið.

Sjá einnig: Japan og Bandaríkin taka höndum saman gegn Kína

Fjárútlát til varnarmála í Japan hafa aukist töluvert á undanförnum árum.

Frá seinni heimsstyrjöldinni hefur herafli Japans verið kallaður Heimavarnarlið Japans eða SDF. Stjórnarskrá landsins, sem samin var eftir stríðið, meinar SDF að eiga í átökum í flestum tilfellum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×