Japanska fánanum var flaggað í hálfa stöng við sendiráð Japans á Íslandi í dag vegna morðsins á Shinzo Abe, fyrrum forsætisráðherra Japans.
Abe var skotinn á föstudag þar sem hann flutti stuðningsræðu fyrir frambjóðanda í japönsku þingkosningunum sem fram fóru um helgina. Hinn 41 árs Tetsuya Yamagami var handtekinn á vettvangi og hefur síðan játað morðið.
Sendiherra Japans á Íslandi þekkti Abe og segir hann hafa verið góðan og vel liðinn.
„Hann var viðkunnanlegur maður og hann var vel þekktur fyrir stjórnvisku sína,“ sagði Ryotaro Suzuki, sendiherra Japans á Íslandi.
Morðið á Abe hefur tekið mjög á Japönsku þjóðina. Þeim sem vilja gefst á morgun tækifæri til að skrifa samúðarkveðjur í bók sem er í sendiráði Japans á Laugavegi.
The Condolence Book will be open to the public for signing on Monday, 11th July and on Tuesday, 12th July, each day during 09:00-12:00 and 13:00-16:00 at the Embassy.https://t.co/SwKkzcF5A5
— SUZUKI Ryotaro 鈴木亮太郎 (@SUZUKIRyotaro1) July 8, 2022
„Starfsfólk sendiráðsins, þar á meðal ég sjálfur, er í miklu áfalli eftir þetta glórulausa ofbeldi. Ég finn fyrir mikilli sorg vegna þessa atviks.“