Andri Freyr Jónasson kom Fjölni yfir strax á fimmtu mínútu og Lúkas Logi Heimisson tvöfaldaði forskot gestanna einungis sex mínútum síðar.
Harley Willard, leikmaður Þórs, náði að klóra í bakkann með marki á 20. mínútu áður en Guðmundur Karl Guðmundsson endurheimti tveggja marka forystu Fjölnis með marki rétt fyrir hálfleik.
Reynir Haraldsson rak svo smiðshöggið fyrir gestina með fjórða marki Fjölnis á 65. mínútu.
Með sigrinum fer Fjölnir upp í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig, einungis fjórum stigum á eftir toppliði Fylkis. Þór er hins vegar í miklu basli þar sem liðið er í þriðja neðsta sæti deildarinnar, því tíunda, með 11 stig. Þór er einungis fjórum stigum fyrir ofan KV sem er í fallsæti.
Næsti leikur Þórs er á útivelli gegn Kórdrengjum næsta föstudag á meðan Fjölnir tekur á móti Þrótti Vogum í Grafarvogi degi fyrr.
Upplýsingar um markaskorara koma frá vef Fotbolti.net.