Sport

„Það er ekki hægt að vinna leiki með svona lélegum varnarleik“

Andri Már Eggertsson skrifar
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. Vísir/Vilhelm

ÍA steinlá fyrir Stjörnunni. Gestirnir frá Garðabæ unnu 0-3 sigur og var Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, afar ósáttur með varnarleik Skagamanna.

„Við gáfum Stjörnunni allt of auðveld mörk og þar lá munurinn í leiknum,“ sagði Jón Þór Hauksson svekktur eftir leik og hélt áfram.

„Það var erfitt að fá á sig mark í síðustu spyrnunni fyrir hálfleik. Stjarnan hnoðaðist í gegnum mína menn heldur auðveldlega. Markið hans Ólafs [Karl Finsen] var flott en hann átti aldrei að komast í þessa stöðu og það er ekkert hægt að vinna leiki með svona lélegum varnarleik á okkar heimavelli.“

ÍA hefur ekki unnið leik síðan í 2. umferð þar sem Skagamenn unnu Víking Reykjavík. Jón Þór hefur áhyggjur af þessari þróun Skagamanna sem vantar sjálfstraust að hans mati.

„Ef þú vinnur ekki leiki þá er erfitt að fá sjálfstraust. Það sást í þessum leik bæði í sóknar og varnarleiknum að við vorum undir í allri baráttu.“

„Við höfum unnið í því að bæta okkar leik. Við áttum nokkra góða leiki eftir landsleikjahlé en eftir leikinn gegn Leikni þar sem við lentum í mörgum meiðslum hefur okkur ekki tekist að lenda á fótunum. Við þurfum að rífa okkur upp og ná áttum. Varnarleikurinn okkar er út um allt og við þurfum meiri yfirvegun í hann,“ sagði Jón Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×