Erlent

Danskir fram­leið­endur semja við Viaplay og fram­leiðsla hefst að nýju

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Viaplay náði tímabundnu samkomulagi við danska kvikmyndaframleiðendur og Create Denmark sem þýðir að framleiðsla á þeim verkefnum sem fóru í stopp í júní mun hefjast að nýju.
Viaplay náði tímabundnu samkomulagi við danska kvikmyndaframleiðendur og Create Denmark sem þýðir að framleiðsla á þeim verkefnum sem fóru í stopp í júní mun hefjast að nýju. Getty/Jakub Porzycki

Danskir kvikmyndaframleiðendur hafa gert tímabundið samkomulag við Viaplay sem gerir að verkum að framleiðsluverkefni tengd streymisveitunni sem fóru í stopp í júní munu fara í gang að nýju. 

Auk Viaplay og samtaka kvikmyndaframleiðenda tekur Create Denmark þátt í samkomulaginu en það eru óhagnaðardrifin samtök sem berjast fyrir bættum réttindum listamanna þegar kemur að stafrænum hugverkum og samningum.

Þrátt fyrir að samkomulagið sé einungis tímabundið segir í fréttatilkynningu Viaplay að allir aðilar viðriðnir samkomulagið vilji vinna að langtímalausn og ætli að halda áfram umræðum í haust.

„Við erum ánægð að við skyldum hafa náð tímabundinni lausn og viljum þakka Create Denmark og samtökum kvikmyndaframleiðenda fyrir uppbybggilega nálgun þeirra í þessu ferli. Þetta er mikilvægt fyrsta skref, en við verðum líka að muna að það eru aðrar áskoranir í dönskum fjölmiðlamarkaði sem verður að takast á við og finna lausn á,“ sagði Filippa Wallestam, fulltrúi Viaplay Group.

Neituðu að deila gróðanum með framleiðendum

Streymisveiturnar Netflix, Viaplay og TV2 Play ákváðu í júní að hætta framleiðslu á öllu leiknu sjónvarpsefni á dönsku. Ástæðan var nýr samningur í Danmörku sem tryggði framleiðendum, leikstjórum og leikurum prósentu af gróðanum sem fékkst af streymi kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Samningar dönsku kvikmyndaframleiðendanna voru gerðir í kjölfar sambærilegra samninga sem voru gerðir í Sviss nýlega og þar áður í Portúgal, Frakklandi og Ítalíu. Eftir dönsku samningana tilkynntu streymisveiturnar þrjár að þær hygðust hætta framleiðslu á leiknu dönsku sjónvarpsefni og fór þá fjöldi verkefna í stopp.

Nú hefur Viaplay ákveðið að gefa eftir og hefja framleiðslu að nýju en TV2 Play og Netflix hafa hins vegar ekki enn breytt afstöðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×