Fótbolti

Haller greindist með æxli í eistum

Sindri Sverrisson skrifar
Sebastien Haller í æfingabúðum Dortmund í Sviss. Hann er nú farinn til Þýskalands í rannsóknir vegna æxlis í eistum.
Sebastien Haller í æfingabúðum Dortmund í Sviss. Hann er nú farinn til Þýskalands í rannsóknir vegna æxlis í eistum. Getty/David Inderlied

Sébastien Haller, arftaki Erlings Haaland hjá þýska knattspyrnufélaginu Dortmund, hefur yfirgefið æfingabúðir liðsins í Sviss eftir að hafa greinst með æxli í eistum.

Haller, sem er 28 ára gamall, kvartaði fyrst undan óþægindum á æfingu á mánudaginn. Æxlið fannst svo við læknisskoðun og Haller fór í kjölfarið til Þýskalands til frekari rannsókna. Ekki er ljóst hvort æxlið er illkynja.

„Fréttir dagsins eru mikið áfall fyrir Sebastien Haller og alla aðra,“ er haft eftir Sebastian Kehl, íþróttastjóra Dortmund, á vef The Guardian.

„Öll Dortmund-fjölskyldan vonar að Sébastien nái fullum bata eins fljótt og hægt er og að við getum faðmað hann aftur sem fyrst. Við munum gera allt sem við getum til þess að hann fái bestu mögulegu meðferð,“ sagði Kehl.

Haller kom til Dortmund fyrr í þessum mánuði frá Ajax, fyrir 31 milljón evra, til að hjálpa til við að fylla í skarðið stóra sem Erling Haaland skildi eftir sig þegar hann fór til Manchester City.

Haller skoraði 34 mörk fyrir Ajax á síðustu leiktíð, þar af 11 í aðeins átta leikjum í Meistaradeild Evrópu. Hann er fæddur í Frakklandi en er landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×