Erlent

Baráttufólk dæmt til dauða í Mjanmar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hinn 41 árs gamli Pho Zeya Thaw, fyrrverandi lögfræðingur og ráðgjafi Aung San Suu Kyi var á meðal þeirra sem voru dæmdir til dauða.
Hinn 41 árs gamli Pho Zeya Thaw, fyrrverandi lögfræðingur og ráðgjafi Aung San Suu Kyi var á meðal þeirra sem voru dæmdir til dauða. AP

Herforingjastjórnin í Mjanmar hefur tekið fjóra baráttumenn fyrir auknu lýðræði af lífi en dauðarefsingum hefur ekki verið beitt í landinu í rúma fjóra áratugi, opinberlega í það minnsta. Þeir dauðadæmdu voru fyrrverandi þingmaður, rithöfundur og tveir aðgerðasinnar.

Mennirnir voru allir sakaðir um hryðjuverk gegn valdstjórninni og sumir þeirra voru nánir samstarfsmenn Aung San Suu Kyi fyrrverandi leiðtoga landsins. Mennirnir voru dæmdir á bak við luktar dyr í janúar síðastliðnum og tilraunir til áfrýjunar báru engan árangur. 

Dauðadómarnir hafa vakið mikla reiði víða og segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres að þeir séu klárt mannréttindabrot. 

Eftir að herforingjastjórnin tók sér algert vald í landinu á síðasta ári hafa þeir hert tökin verulega og berja nú allt andóf niður með grimmilegum hætti. Aung San Suu Kyi hefur sjálf verið í stofufangelsi og kærð fyrir margvísleg brot svo hún á yfir höfði sér áratuga fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×