Fótbolti

Fastamaður í Atalanta liðinu féll á lyfjaprófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jose Luis Palomino spilar ekki með Atalanta á næstunni og er mögulega á leið í langt bann.
 Jose Luis Palomino spilar ekki með Atalanta á næstunni og er mögulega á leið í langt bann. Getty/Marco Canoniero

Ítalska knattspyrnuliðið Atlanta verður án reynslubolta síns á næstunni eftir að argentínski miðvörðurinn Jose Luis Palomino féll á lyfjaprófi.

Ítalska lyfjaeftirlitið gaf það út í gær að hinn 32 ára gamli Palomino hafi verið með anabólíska stera í sýni sínu.

„Í sýni íþróttamannsins fannst umbrotsefni sem sýna fram á notkun sterans klostebol,“ segir í yfirlýsingu Nado.

Klostebol er vel þekktur steri sem íþróttafólk hefur notað um árabil en norska skíðagöngukonan var meðal annars dæmd í átján mánaða bann fyrir notkun hans.

Palomino er kominn í tímabundið bann á meðan frekari rannsókn stendur yfir og B-sýni hans verður skoðað.

Palomino hefur verið fastamaður í Atalanta liðinu og búinn að spila 203 leiki fyirr félagið síðan hann kom þangað árið 2017. Þar áður lék hann í Frakklandi (Metz, 2014-2016) og Búlgaríu(Ludogorets, 2016-2017).

Palomino lék 45 leiki í öllum keppnum með Atalanta á síðustu leiktíð og skoraði í þeim tvö mörk.

Samningur Palomino við Atalanta rennur út næsta sumar og því er líklegt að hann hafi leikið sinn síðasta leik fyrir ítalska félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×