Samkomulag milli Rússa og Úkraínumanna var undirritað fyrir rúmri viku síðan en ekki hefur tekist að hefja útflutning fyrr en nú. Skipafélög hafa verið varkár en Rússar hafa í tvígang gert loftárásir á Odessa eftir að samkomulagið var undirritað og siglingaleiðir eru krökkar af tundurduflum.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnar fyrstu sendingunni: „Skipið er á leið til hafnar í Trípólí í Líbanon með 26.500 tonn af korni og er skipið það fyrsta sem fer síðan samningurinn var undirritaður fyrir milligöngu Tyrkja hinn 22. júlí,“ sagði talsmaður António Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu. CNN greinir frá.
Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu tekur í sama streng og segir fréttirnar mikinn létti. Hann bindur vonir við að Rússar standi við samninginn, en samkomulagið gildir í 120 daga eða fjóra mánuði. Þegar Rússar hófu innrás sína hinn 24. febrúar voru um hundrað flutningaskip í höfnum Úkraínu við Svartahaf og hafa ekki komist þaðan síðan.