Erlent

Kínverjar æfir yfir heimsókn Pelosi til Taívan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pelosi er væntanleg til Taívan í dag.
Pelosi er væntanleg til Taívan í dag. AP/J. Scott Applewhite

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, er væntanleg til Taívan í dag. Kínversk stjórnvöld hafa brugðist illa við fyrirhugaðri heimsókn og sendiherra Kína í Bandaríkjunum meðal annars sagt að Kínverjar muni ekki sitja aðgerðalausir hjá.

Fyrrverandi sendiherra Kína á Bretlandseyjum segir að heimsókn Pelosi sé óboðlegt inngrip í innanríkismál landsins og aðför gegn meginreglunni um eitt sameinað Kína. Kínverjar eru sagðir hafa aukið hernaðarlegan viðbúnað við óformleg landamæri Kína og Taívan vegna heimsóknarinnar.

Sjálfir hafa Bandaríkjamenn sagt óþarfa að gera heimsókn Pelosi að uppákomu.

Og þessu tengt en Antóníó Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir alþjóðasamfélagið einu röngu skrefi frá gjöreyðingu af völdum kjarnorkustyrjaldar. Vísaði hann meðal annars til átakanna í Úkraínu og spennu á Kóreuskaganum og í Mið-Austurlöndum. 

Sagði Guterres einfaldan misskilning gætu haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og að ríki heims stæðu frammi fyrir áhættu sem hefði ekki verið jafn mikil frá tímum Kalda stríðsins. Guterres sagði menn í raun hafa verið heppna hingað til en heppni væri ekki eitthvað til að byggja á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×