Fram kom í tilkynningu frá almannavörnum sem barst rétt eftir klukkan þrjú að hraun renni í Geldingadölum skammt norðaustan gígsins sem gaus lengst úr í fyrra. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar séu innviðir ekki í hættu en fólk vinsamlegast beðið um að halda sig frá svæðinu og huga vel að hættu vegna mögulegrar gasmengunar.
Almannavarnir hafa biðlað til fólks að fara ekki nærri gosupptökunum. Mikilvægt sé að halda svæðinu öruggu en vísindamenn séu að störfum að meta stöðuna.
Tilkynning barst þá frá lögreglunni á Suðurnesjum nú rétt fyrir klukkan 16 þar sem fram kemur að lögregla hafi lokað á akandi umferð á vegslóðum umhverfis gosstöðvarnar. Akstur utan vega sé stranglega bannaður en enn sé opið fyrir umferð um Suðurstrandarveg og Reykjanesbraut.
Viðbragðsaðilar komi til með að meta aðstæður reglulega og komið geti til þess að rýma þurfi svæði nærri gosstöðvunum án nokkurs fyrirvara. Gasmengun sé þá við gosstöðvarnar þó vindátt sé hagstæð eins og sakir standa.