Innlent

Þrettán ára ung­lingur ætlaði að sækja fé­laga sinn

Árni Sæberg skrifar
Hér á landi mega þrettán ára börn alls ekki aka bifreiðum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hér á landi mega þrettán ára börn alls ekki aka bifreiðum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Robb Reece/Getty

Laust fyrir klukkan fjögur í nótt var ökumaður stöðvaður af lögreglu í Hafnarfirði. Sá reyndist aldrei hafa öðlast ökuréttindi enda aðeins þrettán ára gamall.

Þrír farþegar voru í bílnum og voru þeir á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Spurðir hvert erindi þeirra væri kváðust þeir vera að sækja vin sinn í Hafnarfjörð en þeir höfðu komið úr alla leið frá Reykjanesbæ.

Málið var unnið með aðkomu foreldra og tilkynningu til Barnaverndar, að því er segir í dagbók lögreglu.

Þá voru ungmenni einnig til ama í Elliðaárdal en tilkynnt var um partí þar sem um tvö til þrjú hundruð unglingar höfðu safnast saman, að sögn tilkynnanda. Lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum þar sem áfengi var hellt niður og hringt í foreldra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×