Fótbolti

Tap hjá Jóni Degi fyrir Alderweireld og félögum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Dagur og félagar töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni.
Jón Dagur og félagar töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni. vísir/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson og liðsfélagar hans í Oud-Heverlee Leuven þurftu að þola 4-2 tap fyrir Antwerp í þriðju umferð belgísku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Bæði lið voru með fullt hús, sex stig, eftir fyrstu tvo leikina og því ljóst að fullkomin byrjun annars eða beggja liða þyrfti að enda í dag.

Jón Dagur byrjaði leikinn í vinstri vængbakverði í 5-4-1 kerfi Leuven en honum var skipt af velli á 58. mínútu leiksins, aðeins þremur mínútum eftir mark hans manna.

Leuven hafði komist yfir á 27. mínútu en mörk frá fyrrum belgíska landsliðsmanninum Radja Nainggolan og Michael Frey þýddi að staðan var 2-1 fyrir heimamenn í Antwerp í hléi.

Louis Patris jafnaði fyrir Leuven, líkt og áður segir, á 53. mínútu en Leuven gerði tvöfalda skiptingu skömmu síðar þar sem Jóni Degi var skipt af velli. Sú skipting skilaði hins vegar litlum árangri þar sem Michel-Ange Balikwisha skoraði tvö mörk fyrir Antwerp áður en yfir lauk.

Antwerp er því með fullt hús, níu stig, eftir þrjá leiki en liðið ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð. Nainggolan, sem var lengi vel á meðal bestu miðjumanna ítalska boltans, er þar ásamt fyrrum belgísku landsliðsmönnunum Ritchie De Laet og Toby Alderweireld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×