Viðskipti innlent

Líf­eyris­sjóðir lands­manna dregist saman um tæp­lega 400 milljarða króna

Árni Sæberg skrifar
Þórey S. Þórðardóttir er framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða.
Þórey S. Þórðardóttir er framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða. Landssamband lífeyrissjóða

Á fyrri helmingi árs hafa eignir íslenskra lífeyrissjóða dregist saman um 361 milljarð króna.

Í árslok 2021 voru eignir íslenskra lífeyrissjóða 6.747 milljarðar króna en að loknum fyrstu sex mánuðum þessa árs standa eignirnar í 6.386 milljörðum króna. Þetta segir í tilkynningu á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ávöxtun lífeyrissjóðanna hefur verið mjög góð undanfarin ár líkt og sjá má í grafinu hér að neðan:

Lífeyrismál.is

Um er að ræða 5,4 prósent lækkun á fyrri helmingi ársins sem má að mestu rekja til erlendra eigna lífeyrissjóðanna. Innlendar eignir hafa svo gott sem staðið í stað en erlendar hafa lækkað um rúmlega fjórtán prósent.

„Lækkun erlendra eigna má rekja til viðsnúnings á erlendum eignamörkuðum og til styrkingar krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða var við árslok 2021 komið upp í tæp 36% en hefur lækkað og var rúm 32% í lok júní 2022,“ segir í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að lækkun á sjóðum lífeyrissjóðanna hafi ekki áhrif á lantímamarkmið þeirra sem séu að ávaxta eignir sjóðfélaga og greiða lífeyri eftir starfslok.

Útlán aukist það sem af er ári

Útlán lífeyrissjóða til kaupa á húsnæði hafa farið vaxandi á fyrri hluta árs 2022 en undanfarin tvö ár hafa landsmenn í auknum mæli tekið húsnæðislán hjá bönkum.

Ný útlán lífeyrissjóða námu rúmlega tuttugu milljörðum króna umfram uppgreiðslur á fyrstu sex mánuðum ársins.

Verðtryggð lán hafa dregist saman um sextán milljarða króna á árinu en óverðtryggð aukist um 36 milljarða króna. „Því er ljóst að áfram er mikil ásókn í óverðtryggð lán umfram verðtryggð lán,“ segir í tilkynningu.

Hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði er 22 prósent á móti bönkum og Íbúðalánasjóði. Heildarútlán lífeyrissjóða voru 515 ma.kr í lok júní 2022.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×