Erlent

Sagn­fræðingurinn og Pulitzer­-hafinn David McCullough látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
David McCullough við heimili sitt á eyjunni Martha's Vineyard í Massachusetts.
David McCullough við heimili sitt á eyjunni Martha's Vineyard í Massachusetts. AP/Steven Senne

David McCullough, sagnfræðingur og tvöfaldur Pulitzer-verðlaunahafi, er látinn, 89 ára að aldri.

Hann lést á sunnudag umkringdur fjölskyldu sinni í bænum Hingham í Massachussets í Bandaríkjunum, aðeins tveimur mánuðum á eftir Rosalee Barnes, eiginkonu sinni til 68 ára. Fjölskylda hans greindi frá þessu á Facebook og hefur dóttir hans, Dorie Lawson, staðfest fregnirnar.

McCullough hlaut BA-gráðu í enskum bókmenntum frá Yale-háskóla 1955 og starfaði næstu tólf árin eftir það sem blaðamaður og ritstjóri hjá ýmsum tímaritum, fréttamiðlum og stofnunum.

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, veitti David McCullough Frelsisorðuna árið 2006.AP/Pablo Martinez Monsivais

Þá ákvað hann að snúa sér að skrifum og útgáfu eigin verka og 1968 gaf hann út sína fyrstu bók, The Johnstown Flood. Það var upphafið að löngum og farsælum rithöfundarferli sem innihélt fjölda bóka sagnfræðilegs eðlis.

Meðal verka McCullough má nefna sagnfræðibækurnar 1776, The Wright Brothers, Truman og John Adams. 

Fyrir þær tvær síðastnefndu hlaut hann Pulitzer-verðlaun en þær voru einnig gerðar að kvikmynd og sjónvarpsþáttaseríu. McCullough vann sjálfur einnig í kvikmyndum, þá aðallega sem sögumaður ýmissa heimildamynda.

Auk þess að fá tvisvar Pulitzer-verðlaun hlaut McCullough einnig Frelsisorðu Bandaríkjaforseta árið 2006, eina mestu viðurkenningu sem Bandaríkjamenn geta hlotið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×