„Heyrðu, það gengur mjög vel, nú erum við næstum því búin að vera opin í þrjú ár og það gengur bara vonum framar. Við erum í rauninni komin ár fram yfir áætlun miðað við hvað við héldum að við myndum standa í dag,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Vök.
Frábærar fréttir, allt á blússandi siglingu í Vök enda staðurinn einn af þeim vinsælustu á Austurlandi hjá ferðamönnum og ekki síður heimamönnum. 30 starfsmenn vinna á staðnum.

„Það sem ég myndi segja að standi upp úr hér að við erum með eina vottaða jarðhitavatnið á landinu. Við erum líka að brugga bjór upp úr vatninu í samvinnu við Austra brugghús og náttúrulega tengingin við Urriðavatn. Við erum með þrjá stiga þar sem þú getur labbað, stokkið eða farið ofan í vatnið í stiga og þá færðu þessa náttúrulegu vellíðunartilfinningu þegar þú ferð ofan í. Blóðflæði eykst og svo kemur þú í heita og þá kemur mjög skemmtileg tilfinning í líkamann og þú finnur alveg áhrif af því í nokkra klukkutíma,“ segir Aðalheiður enn fremur.
Aðalheiður segir að nú sé verið að skoða mjög skemmtilega hluti með arkitektum varðandi stækkun staðarins þótt hún vilji ekki upplýsa neitt meira um það að svo stöddu. Lítill fugl hvíslaði hótel við staðinn en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
