Maggie Haberman, blaðamaður New York Times, sem hefur fjallað mikið um Donald Trump og er að vinna að bók um forsetatíð forsetans fyrrverandi, birti brot úr yfirlýsingu Trump á Twitter.

Miðað við lýsingar Trump virðast aðgerðir Alríkislögreglunnar á heimili Trump hafa falið í sér húsleit en það er ekki enn ljóst hvers vegna ráðist var í hana enda ýmislegt sem kemur til greina.
Hugsanlega tengjast aðgerðirnar því að Trump tók fjölda leynilegra skjala með sér til Flórída eftir að forsetatíð hans lauk. Trump sjálfur hefur hins vegar þvertekið fyrir þær ásakanir.
Einnig gæti húsleitin tengst rannsókn Alríkislögreglunnar á síðustu forsetakosningum Bandaríkjanna.
Fyrr í sumar framkvæmdu Alríkislögregluþjónar fjölda húsleita heima hjá stuðningsmönnum Trump í tengslum við tilraunir þeirra til að tefla fram fölskum kjörmönnum til að halda forsetanum fyrrverandi við völd í kosningunum í fyrra.
Húsleitin sé vopnvæðing dómskerfisins og árás róttækra vinstrimanna
Á skjáskoti sem Haberman birtir af yfirlýsingunni segir Trump að ekkert í líkingu við þetta hafi nokkru sinni komið fyrir forseta Bandaríkjanna. Þá hafi „þessi óvænta skyndiárás“ hvorki verið „nauðsynleg né viðeigandi“ eftir að hann hafði fúslega unnið með yfirvöldum.
Trump segir að „árásin“ feli í sér misferli saksóknara, hún sé „vopnvæðing dómskerfisins“ og „árás róttækra vinstrisinnaðra Demókrata“ sem vilji ekki að hann bjóði sig fram til forseta.
Trump says MAL has been searched by feds pic.twitter.com/UEC5KE5pJm
— Maggie Haberman (@maggieNYT) August 8, 2022
Hann segir jafnframt að slík árás gæti aðeins átt sér stað í brotnum þriðja heims ríkjum sem Bandaríkin séu því miður orðin vegna spillingar. Hann segir að lögreglumennirnir hafi meira að segja brotist inn í peningaskáp hans.
Þá veltir Trump því fyrir sér hver sé munurinn á þessari aðgerð Alríkislögreglunnar og aðgerða spæjara í Watergate-hneykslinu. Að lokum segir hann að þetta sé þáttur í áframhaldandi pólitískri ofsókn gegn sér sem hafi staðið yfir í mörg ár.