Þeir Daniel Ingi Jóhannesson og Jón Arnar Sigurðsson eru komnir í sögubækur íslenskrar knattspyrnu þar sem um er að ræða yngsta leikmann í sögu efstu deildar hjá ÍA annars vegar og yngsta leikmann í sögu efstu deildar hjá KR hins vegar. Báðir koma úr gríðarlegum fótboltafjölskyldum.
Þann 1. ágúst síðastliðinn mættust Breiðablik og ÍA í Bestu deild karla. Fór það svo að Breiðablik vann 3-1 heimasigur en þegar fimm mínútur lifðu leiks kom Daniel Ingi Jóhannesson inn af bekknum hjá gestunum og varð um leið yngsti leikmaður í sögu ÍA í efstu deild. Raunar varð hann yngsti leikmaður til að spila deildarleik fyrir ÍA.
Daniel Ingi var 15 ára og 119 daga gamall er hann sló metið. Ísak Bergmann Jóhannesson, bróðir Daniels Inga, var yngsti leikmaður ÍA í deildarkeppni fyrir leikinn þann 1. ágúst á meðan Sigurður Jónsson var yngsti leikmaður ÍA í sögu efstu deildar.
Ísak Bergmann er í dag landsliðsmaður ásamt því að spila með meistaraliði FC Kaupmannahöfn í Danmörku. Faðir þeirra er Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður sem og fyrrverandi þjálfari ÍA en hann er í dag aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands.
Það var svo sunnudaginn viku síðar, þann 7. ágúst sem Jón Arnar Sigurðsson varð yngsti leikmaður KR í sögu efstu deildar er hann kom inn af varamannabekknum í 4-0 sigri á ÍBV.
„Jón Arnar er einungis 15 ára og 96 daga gamall og því yngsti leikmaður í sögunni til að spila fyrir KR í efstu deild, ásamt því að vera fjórða kynslóð til að spila fyrir meistaraflokk KR,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu KR.
Jón Arnar er sonur Sigurðar Arnar Jónssonar sem lék með KR á árunum 1989 til 2001. Afi Jóns Arnars er Jón Már Ólason en hann lék með liðinu 1968-69 og langafi drengsins er Óli Björgvin Jónasson en hann lék með KR frá árunum 1936-1950.
Árni Ingi Pjetursson átti metið á undan Jóni Arnari en verður að bíta í það súra epli að vera núna næstyngsti leikmaður í sögu KR í efstu deild.
KR er í dag í 6. sæti Bestu deildar karla með 24 stig eftir 16 leiki á meðan ÍA er með 8 stig eftir jafn marga leiki.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.