Verkefnið nefnist Sæberg (e. CO2SeaStone) og er samstarfsverkefni Carbfix og ETH Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og University College í London.
Tilraunin er hluti af stærra verkefni sem gengur út á að prófa og þróa nokkrar mismunandi tæknilausnir til að fanga, nýta, flytja og farga koltvísýring frá Sviss. Það er gert ýmist til að ná fram neikvæðri losun eða minnka hana með því að fanga frá iðnaði sem ekki á gott með að draga úr sinni losun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbfix en fyrirtækið hefur í um áratug fangað koltvíoxíð úr útblæstri jarðhitavirkjunarinnar á Hellisheiði og bundið það í jörðu. Fyrir um ári hóf félagið, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, að binda líka koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, blanda því í vatn og binda það í jörðina.
Mikilvægt rannsóknarverkefni
Nú eru nýjar aðferðir í sjónmáli en Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, segir Sæbergsverkefnið eitt það mikilvægasta sem fyrirtækið vinnur að um þessar mundir.
„Þó að hægt sé að beita tækni okkar víða um heiminn myndi það auka möguleika hennar verulega að geta notað sjó í stað ferskvatns. Við eigum mjög gott samstarf við fjölmarga aðila um verkefnið og erum þakklát bæði Reykjanesbæ fyrir að veita því aðstöðu í Helguvík og Samskipum fyrir að greiða fyrir flutningnum,“ er haft eftir Eddu í tilkynningu Carbfix.

Tækifæri fyrir þróunarlönd
Í tilkynningunni segir einnig að Háskóli Íslandi og Carbfix hafi nú þegar sýnt fram á það að sjór hefur sömu virkni og ferskvatn þegar kemur að Carbfix-tækninni. Nú verði það í fyrsta sinn reynt á stærri skala með niðurdælingu. Stefnt er að því að borholan í Helguvík verði tilbúin á haustmánuðum og niðurdæling hefjist í kjölfarið.
Þótt víða í heiminum séu góðar aðstæður til að beita Carbfix-tækninni er aðgangur að ferskvatni sums staðar takmarkandi þáttur. Takist að nota sjó í stað ferskvatns mun það fjölga verulega þeim svæðum þar sem hægt er að beita tækninni. Til að mynda er basalt undir stórum hluta sjávarbotns jarðar.
