Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn. Ingigerður hóf störf hjá fyrirtækinu í byrjun mánaðar en áður starfaði hún sem öryggis- og gæðastjóri meðal annars hjá Lyfjastofnun, Borgun og Sjóvá og býr yfir áratuga reynslu af öryggis- og gæðamálum.
Fram kemur í tilkynningu að starf hennar muni meðal annars felast í að bera ábyrgð á rekstri og þróun á gæðakerfi Sýnar, viðhalda alþjóðlegu öryggisvottuninni ISO27002 og jafnlaunavottun IST85. Þá muni hún hafa umsjón með innri og ytri úttektum, innkaupum á öryggisbúnaði, umsjón með áhættugreiningu og greiningu á ferlum. Þá muni hún sinna fræðslu og ráðgjöf starfsmanna um öryggis- og gæðamál og hafa eftirlit og samskipti við opinbera aðila varðandi þau mál.

Páll Vignir hefur verið ráðinn forstöðumaður fjölmiðlalausna sem er nýtt svið innan Sýnar. Í tilkynningunni segir að Páll Vignir hafi meira en fimmtán ára reynslu á sviði fjölmiðla og hafi unnið að stafrænum breytingum og leitt verkefnahópa í uppbyggingu fjölmiðlalausna. Hann hefur undanfarin átta ár starfað í Bretlandi, síðast hjá Sky Group, en þar á undan hjá Ericsson, Red Bee og BBC en fyrir það hjá Senu og Skjánum á Íslandi.
Þá hefur Helga Björg verið ráðin markaðsstjóri Vodafone og mun hún leiða hóp sérfræðinga í markaðsdeild Vodafone fyrir einstaklings- og fyrirtækjamarkað. Helga hefur starfað hjá Sýn frá árinu 2020 sem vörumerkjastjóri en starfaði þar áður hjá Ölgerðinni. Helga er viðskiptafræðingur að mennt og hefur lokið MS námi við Háskóla Íslands í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.
Vísir er í eigu Sýnar hf.