Innlent

Veru­lega dregið úr hraun­flæði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Dregið hefur verulega úr hraunflæði síðustu daga.
Dregið hefur verulega úr hraunflæði síðustu daga. Vísir/Vilhelm

Verulega hefur dregið úr hraunflæði við gosstöðvarnar í Meradölum. Samkvæmt niðurstöðum flugmælinga hefur flæðið farið úr 11 rúmmetrum á sekúndu yfir í 3 til 4 rúmmetra á sekúndu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. 4. til 13. ágúst var flæðið 11 rúmmetrar á sekúndu að meðaltali en dagana 13. til 15. ágúst var það komið niður í þrjá til fjóra rúmmetra á sekúndu.

„Óvissa er há í einstökum mælingum þegar tímabilin eru svona stutt, en samanlagt sýna þær mælingar sem náðst hafa frá laugardagmorgni (þar af ein úr Pleiades gervitunglinu) svo ekki verður um villst að mjög hefur dregið úr gosinu,“ segir í tilkynningunni.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við að undanfarna daga hefur gosopum fækkað og hrauntaumar runnið skemur í Meradölum en var framan af.

„Ómögulegt er að segja um á þessu stigi hvort goslok séu nærri, eða hvor nú er aðeins tímabundið lágmark í gosinu,“ segir í færslunni.

Graf sem sýnir breytingu hraunflæðisins, rúmmálsins, flatarmál og gaslosun.Jarðvísindastofnun HÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×