Starfsmenn fyrirtækisins SpaceX, sem er í eigu auðjöfursins Elons Musk, vinna að því að koma þyrpingu smárra gervihnatta á braut um jörðu og nota þá til að dreifa interneti um heiminn allan. Þessi þyrping kallast Starlink.
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, birti í dag myndir af gervihnöttunum yfir Íslandi og myndband sem hann fékk sent frá flugmanni sem varð vitni að því þegar starfsmenn SpaceX skutu síðast Starlink-gervihnöttum á braut um jörðu.
Það var þann 12. ágúst og var 46 gervihnöttum skotið á loft með Falcon 9 eldflaug SpaceX.
Sævar segir að gervihnöttunum hafi verið komið á sporbraut um póla jarðarinnar og það þýði að þeir fari yfir Ísland annað slagið í um þrjú hundruð kílómetra hæð.
Í samtali við Vísi Bendir Sævar Helgi á að forsvarsmenn Starlink séu alls ekki þeir einu sem vinni að uppbyggingu gervihnattaþyrpingar á braut um jörðu. Gervihnöttunum muni bara fjölga á komandi árum og hafa mikil áhrif á ásýnd himinsins, sérstaklega á haustin og vorin.
„Það má búast við því að margar norðurljósamyndir verði skreyttar Starlink-rákum á næstu árum,“ segir Sævar.

Hann segist búast við því að það muni til dæmis ekki fara vel í svokallaða norðurljósaferðamenn, sem fjölmenna hér á landi á hverjum vetri.
Sjá einnig: Tapa allt að fjörutíu nýjum gervihnöttum vegna segulstorms
Mest verða áhrif gervihnattaþyrpinga eins og Starlink þó á störf stjarnvísindamanna. Enn sem komið er hefur SpaceX skotið á þriðja þúsund gervihnatta á braut um jörðu. Fyrirtækið hefur þó leyfi frá yfirvöldum Bandaríkjanna til að nota allt að tólf þúsund gervihnetti í Starlink-þyrpinguna.
Stjörnuvísindamenn hafa þó miklar áhyggjur af ætlunum SpaceX og hafa í nokkur ár kvartað yfir því að gervihnettirnir komi niður á geimvísindum. Meðal annars komi gervihnettirnir niður á myndum úr útvarpssjónaukum.
Gervihnettirnir gætu einnig gert öðrum aðilum, stofnunum og ríkjum erfitt um vik með að skjóta geimförum út í geim og koma eigin gervihnöttum á braut um jörðu.
Vísindamenn og aðrir hafa kallað eftir samhæfðum aðgerðum og reglum um gervihnatta-þyrpingar. Enn sem komið er geta ríki og auðjöfrar þó skrifað eigin reglur.