Mikael Egill Ellertsson lék seinustut mínútur leiksins er lið hans, Spezia, heimsótti Inter í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum og höfðu að lokum betur, 3-0.
Heimamenn í Inter fengu fjöldan allan af færum í fyrri hálfleik, en þrátt fyrir það tókst liðinu aðeins að koma boltanum í netið einu sinni. Það gerði Lautaro Martinez á 35. mínútu og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Hakan Calhanoglu tvöfaldaði svo forystu heimamanna snemma í síðari hálfleik áður en Joaquin Correa gerði endnanlega út um leikinn með marki á 82. mínútu.
Lokatölur urðu því 3-0, Inter í vil, en liðið situr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Mikael og félagar hans í Spezia hafa hins vegar unnið einn leik í upphafi tímabils og nú tapað einum.