Erlent

Khan á­kærður á grund­velli hryðju­verka­laga

Atli Ísleifsson skrifar
Imran Khan var komið frá völdum í apríl síðastliðinn.
Imran Khan var komið frá völdum í apríl síðastliðinn. EPA

Lögregla í Pakistan hefur ákært fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Imran Khan, á grundvelli hryðjuverkalaga.

Rannsókn lögreglu kemur í kjölfar orða Khans þar sem hann sakaði lögreglu og dómstóla um að pynda náinn samstarfsmann sinn eftir að hann var handtekinn sökum ásakana um uppreisnaráróður gegn ríkinu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að spennustigið í landinu sé nú hátt, þar sem stuðningsmenn forsætisráðherrans fyrrverandi hafi safnast saman fyrir utan heimili Khans og heitið því að „ná völdum“ verði hann handtekinn.

Khan, sem tók við embætti forsætisráðherra árið 2018, var komið frá völdum í apríl síðastliðinn og eftir það hefur hann gagnrýnt bæði nýja ríkisstjórn og her landsins harðlega.

Khan fordæmdi í ræðu á laugardaginn bæði lögreglustjórann í höfuðborginni Islamabad og dómara vegna handtöku og meðferðina á aðstoðarmanni Khans og sagði að þau ættu að búa sig undir því að gripið verði til aðgerða.

Hefur lögregla nú ákært Khan á grunni hryðjuverkalaga fyrir að hafa haft í hótunum gegn opinberum aðilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×