Enski boltinn

Kouli­baly heldur á­fram að safna rauðum spjöldum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Koulibaly vissi upp á sig sökina og missir af næsta leik Chelsea.
Koulibaly vissi upp á sig sökina og missir af næsta leik Chelsea. EPA-EFE/ANDREW YATES

Kalidou Koulibaly, miðvörður Chelsea, nældi sér í tvö gul spjöld og þar með rautt er Chelsea steinlá gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Leikmaðurinn er duglegur að safna spjöldum og má ætla að hann næli í fleiri rauð í treyju Chelsea á komandi misserum.

Koulibaly er harður í horn að taka og hafði verið orðaður við stórlið í ensku úrvalsdeildinni í dágóðan tíma áður en Chelsea festi loks kaup á honum í sumar. Þessi 31 árs gamli varnarmaður á það hins vegar til að láta senda sig í sturtu og það tók hann aðeins þrjá leiki með Chelsea að næla í sinn fyrsta reisupassa.

Staðan var orðin 3-0 Leeds í vil er Koulibaly fékk sitt annað gula spjald og því þurfti Chelsea að klára leikinn manni færri. Bæði spjöld hans voru í klaufalegri kantinum sem og þeim grófari miðað við að hann var aðeins að stöðva skyndisókn.

Ef til vill vissu þeir sem völdin fara á Brúnni þetta er leikmaðurinn var sóttur til Napoli en hann hefur verið duglegur að safna rauðum spjöldum þar. Reisupassinn sem hann fékk gegn Leeds var sá sjötti sem Koulibaly fær síðan haustið 2017. Enginn leikmaður í stærstu fimm deildum Evrópu hefur fengið fleiri rauð spjöld á þeim tíma.

Thomas Tuchel þarf nú að gera breytingar í varnarlínu sinni en lið hans hefur fengið fimm mörk á sig í síðustu tveimur leikjum, eitthvað sem er ekki boðlegt að mati Tuchel. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Þjóðverjinn bregst við en Chelsea hefur aðeins unnið einn af fyrstu þremur leikjum sínum á leiktíðinni.

Takk og bless.Robbie Jay Barratt/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×