Umfjöllun,viðtöl og myndir: FH-Kefla­vík 3-0| Endurreisn FH hófst á sigri

Andri Már Eggertsson skrifar
Úlfur Ágúst skoraði tvö mörk í kvöld
Úlfur Ágúst skoraði tvö mörk í kvöld Vísir/Diego

Fyrir leikinn blésu FH-ingar í herlúðra. Boðið var meðal annars frítt á völlinn og var þetta leikurinn sem FH átti að snúa blaðinu við. Keflavík missti mann af velli á 6. mínútu. Einum fleiri skoruðu FH-ingar tvö mörk í fyrri hálfleik.

Úlfur Ágúst Björnsson gerði þriðja mark FH í síðari hálfleik og gulltryggði fyrsta sigur Eiðs Smára í Bestu deildinni.

Eiður Smári var kátur með sigurinnVísir/Diego

FH-ingar byrjuðu leikinn með látum. Það var varla mínúta liðin þegar Úlfur Ágúst Björnsson fékk boltann hægra megin á markteig en Sindri Kristinn gerði sig breiðan og lokaði frábærlega á skotið.

Kian Williams fékk beint rautt spjald á 6. mínútu fyrir að setja fótinn í hausinn á Ólafi Guðmundssyni sem var að skalla boltann á miðjum velli. Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, rak Kian af velli fyrir þennan háskaleik.

Eftir rauða spjaldið fékk Ólafur Guðmundsson nýja treyju og umbúðir á hausinn. Með umbúðirnar á hausnum gerði Ólafur vel í að skalla hornspyrnu frá Steven Lennon í netið. Skalli Ólafs fór af varnarmanni og þaðan í markið.

Ólafur Guðmundsson þurfti að fá umbúðir í leiknumVísir/Diego

Einum fleiri héldu heimamenn að þjarma að Keflvíkingum. Á 32. mínútu átti Oliver Hreiðarsson öflugan sprett upp hægri kantinn þar gaf hann boltann þvert fyrir markið á Úlf Ágúst sem náði að koma boltanum framhjá Sindra Kristni í þetta skiptið.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir FH. Heimamenn voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleik og skoruðu tvö mörk einum fleiri.

Þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Úlfur Ágúst annað mark sitt og þriðja mark FH. Steven Lennon átti góða sendingu á Úlf sem slapp einn í geng þar sem hann lék á Sindra Kristinn og renndi boltanum í markið.

Úlfur Ágúst lék á Sindra í þriðja marki FHVísir/Diego
Úlfur að klára færið með markiVísir/Diego

Ef það var einhver vindur í Keflvíkingum tveimur mörkum undir þá var hann allur farinn eftir þriðja mark FH. Heimamenn fengu nokkur færi til að gera fjórða markið en allt kom fyrir ekki.

Niðurstaðan 3-0 sigur FH og var þetta fyrsti sigur FH í Bestu deildinni eftir að Eiður Smári og Sigurvin Ólafsson tóku við liðinu.

FH-ingar fögnuðu sigrinum með áhorfendunumVísir/Diego

Af hverju vann FH?

FH setti tóninn strax á fyrstu mínútu með miklum hraða og ákefð. Þetta átti að vera leikurinn sem FH myndi snúa blaðinu við og það skilaði sér í sigri. 

Keflavík missti mann af velli á 6. mínútu sem gjörbreytti leiknum. Heimamenn gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk og fengu færi til að gera fleiri. 

Hverjir stóðu upp úr?

Úlfur Ágúst Björnsson var fremsti maður FH í kvöld og skilaði því hlutverki frábærlega. Úlfur skoraði tvö mörk og var óheppinn að gera ekki þrennu. 

Þrátt fyrir að hafa aðeins spilað fyrri hálfleik átti Ólafur Guðmundsson stóran þátt í sigrinum. Kian Williams var rekinn af velli fyrir að sparka í hausinn á Ólafi. Kollspyrna Ólafs braut síðan ísinn fyrir FH á 23. mínútu. 

Hvað gekk illa?

Keflvíkingar náðu engan veginn að jafna hátt orkustig FH-inga. Eftir að Kian Williams fékk rautt spjald veitti Keflavík enga mótspyrnu.

Hvað gerist næst?

FH fer á Meistaravelli næsta sunnudag og mætir KR klukkan 17:00.

Á sama tíma mætast Keflavík og ÍA á HS Orku-vellinum.

Eiður Smári: Gerum okkur grein fyrir því að þetta var bara einn sigur

Eiður Smári á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Diego

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, var afar ánægður með fyrsta sigur sinn í Bestu deildinni eftir að hann tók við sem þjálfari FH. 

„Það var frábært að ná sigri. Ég var ánægður með margt í leiknum. Við vorum manni fleiri nánast allan leikinn og við gerðum vel í þeirri stöðu þar sem við hreyfðum boltann vel, skoruðum þrjú mörk og héldum hreinu. Þetta var heilt yfir mjög góð frammistaða,“ sagði Eiður Smári eftir leik.

Eiður var ánægður með hvernig hans lið mætti til leiks strax á fyrstu mínútu og var lagt upp með það fyrir leik.

„Við mættu til leiks nákvæmlega eins og við ætluðum. Það var mikil orka í okkur. Það var frábært að sjá stuðninginn upp í stúku og loksins gáfum við þeim sem höfðu fyrir því að mæta á völlinn eitthvað til að njóta.“

„Við byrjuðum leikinn vel. Leikplanið breyttist eftir að við urðum einum fleiri. Þá fórum við að stimpla boltanum og við gerðum það með ákefð og héldum hraðanum sem skilaði tveimur mörkum í fyrri hálfleik.“

Eiður hrósaði Úlfi Ágústi Björnssyni fyrir að gera tvö mörk eftir að hafa ekki fengið markið gegn ÍBV skráð á sig.

„Það var frábært fyrir Úlf [Ágúst Björnsson] að hafa skorað tvö mörk. Ég var mjög ósáttur fyrir hans hönd að hafa ekki fengið fyrsta markið sitt skráð sem hann skoraði í Vestmannaeyjum en hann fær þessi tvö mörk skráð á sig.“

„Það var ómögulegt fyrir mig að sjá hvort Úlfur hafi verið rangstæður þegar hann skoraði þriðja markið sitt. Það hefði verið sætt fyrir hann en ég er viss um að Úlfur muni eiga sínar þrennur á löngum ferli.“

Næsti leikur FH er á Meistaravöllum gegn KR og ætlar Eiður ekki að fara of hátt upp eftir sigur kvöldsins.

„Við gerum okkur grein fyrir því að við vorum að vinna í fyrsta skiptið í langan tíma. Það er gott fyrsta skref en þrátt fyrir það er ekki sagt að allt sé frábært og allt verði frábært. Við þurfum að njóta í kvöld svo hefst undirbúningur fyrir næsta leik á morgun.“

Atli Gunnar Guðmundsson, markmaður FH, hélt hreinu í kvöld og sagði Eiður að það væri samkeppni um markvarðar stöðuna líkt og aðrar í liðinu.

„Það er samkeppni um allar stöður það er enginn númer eitt og tvö. Menn eru farnir að gera sér grein fyrir stöðunni og við erum saman í þessu hvort sem það verður Atli eða Gunnar sem spilar næsta leik,“ sagði Eiður Smári að lokum.

Sigurður: Rauða spjaldið vendipunkturinn

Sigurður Ragnar á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Diego

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Rauða spjaldið breytti leiknum. Það var erfitt að vera einum færri gegn FH á útivelli nánast allan leikinn. En mörkin sem við fengum á okkur voru klaufaleg. Við erum til að mynda óvanir að fá á okkur mark eftir hornspyrnu en það gerðist í kvöld.“

Sigurður átti eftir að sjá rauða spjaldið aftur en var ekki sannfærður um hvort rautt spjald hafi verið rétt niðurstaða.

„Ólafur [Guðmundsson] beygði sig fram og Kian [Williams] var kominn upp með fótinn og fór í hausinn á honum þar sem það blæddi úr honum. Þetta var óviljaverk og ég veit ekki hvað maður á að gera ef maður er með fótinn uppi og leikmaður beygir sig en ég verð að sjá þetta aftur í sjónvarpinu.“

Einum manni færri og tveimur mörkum undir reyndi Sigurður að blása trú í sína menn.

„Í hálfleik sagði ég við strákana að hvert mark skiptir máli. Við eigum möguleika á að vera í efri hlutanum og ætlum að berjast fyrir því,“ sagði Sigurður Ragnar að lokum.

 Myndir:

Eggert Gunnþór í baráttunniVísir/Diego
Steven Lennon að taka aukaspyrnuVísir/Diego
FH-ingar fagna í leik kvöldsinsVísir/Diego
Adam Pálsson gegn ÁstbirniVísir/Diego
Það var hiti í leiknumVísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira