Fótbolti

Emil hættur eftir tvö hjartastopp

Sindri Sverrisson skrifar
Emil Pálsson lék sem atvinnumaður í Noregi, með Sandefjord, Sarpsborg og Sogndal.
Emil Pálsson lék sem atvinnumaður í Noregi, með Sandefjord, Sarpsborg og Sogndal. Sandefjord

Emil Pálsson lýsti því yfir í dag að knattspyrnuferli sínum væri lokið en ástæðan er sú að hann hefur tvisvar farið í hjartastopp á síðustu misserum.

Emil hné fyrst niður í leik með Sogndal í norsku 1. deildinni í fótbolta þann 1. nóvember síðasta vetur, þegar hjarta hans stöðvaðist. 

Hann þakkaði læknateymi og starfsfólki Sogndal það að hafa bjargað lífi sínu. Emil virtist svo hafa jafnað sig og var byrjaður að æfa fótbolta með sínu gamla liði FH þegar hann fór aftur í hjartastopp, í maí síðastliðnum.

Emil, sem er 29 ára, hóf ferilinn heima á Ísafirði með BÍ/Bolungarvík en fór þaðan til FH þar sem hann lék frá 2011-2017, með viðkomu hjá Fjölni fyrri hluta leiktíðarinnar 2015. Það ár var hann valinn leikmaður ársins í efstu deild hér á landi.

Stoltur af ferlinum og naut hverrar mínútu

Í yfirlýsingu á Instagram í dag segir Emil það vissulega erfitt að hætta í fótbolta en að heilsan verði að vera í forgangi. Hann skrifaði, í lauslegri þýðingu blaðamanns: 

„Eftir tvö hjartastopp á sex mánaða tímabili hef ég ákveðið að ferli mínum sem fótboltamaður sé lokið.

Fótbolti hefur alltaf verið stærsta ástríðan í lífi mínu og ég er stoltur af þeim ferli sem ég átti. Það eru forréttindi að spila sem atvinnumaður og ég naut hverrar mínútu. 

Það er erfitt að hætta í íþróttinni á þessum tímapunkti en heilsan hefur alltaf verið í forgangi. 

Ég vil þakka sérstaklega liðsfélögum mínum, sem margir eru orðnir að nánustu vinum mínum í dag, og þjálfurum og starfsfólki fyrir að hafa trú á mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×