Innlent

Stefán nýr ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Stefán Guðmundsson, nýr ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis.
Stefán Guðmundsson, nýr ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis. stjórnarráðið

Stefán Guðmundsson, viðskiptafræðingur hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra. Stefán tekur við embættinu 1. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að núverandi ráðuneytisstjóri, Sigríður Auður Arnardóttir, muni hefja störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ráðuneytið þakkar Sigríði fyrir vel unnin störf.

Stefán Guðmundsson hefur gegnt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu fjármála og rekstrar í ráðuneytinu frá árinu 2014. Stefán er fluttur í embætti ráðuneytisstjóra á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta.

Stefán er menntaður viðskiptafræðingur með kandídatspróf í stjórnun frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem forstöðumaður rekstrar- og mannauðssviðs Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, frá árinu 2006 til 2014.

„Stefán býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og af störfum í atvinnulífinu,“ segir einnig í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Sig­ríður Auður til Orku­veitunnar

Sigríður Auður Arnardóttir hefur verið ráðin til Orkuveitu Reykjavíkur sem stjórnandi á nýju fagsviði Samhæfingar og stjórnsýslu sem heyrir undir forstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×