Enski boltinn

New­cast­le borgar met­fé fyrir Isak

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Isak er á leið til Newcastle United
Alexander Isak er á leið til Newcastle United EPA-EFE/Juan Herrero

Sænski framherjinn Alexander Isak er í þann mund að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle United. Verðmiðinn er um 60 milljónir punda eða tæpir 10 milljarðar íslenskra króna.

Hinn 22 ára gamli Isak sprakk út með sænska landsliðinu á Evrópumótinu sumarið 2021. Alls hefur hann spilað 37 A-landsleiki og skorað 9 mörk. Isak fór hins vegar ekki fet eftir EM og var áfram á mála hjá Real Sociedad á Spáni.

Framherjinn hefur verið orðaður við Arsenal undanfarna mánuði en ekkert varð af þeim vistaskiptum. Eddie Howe hefur hins vegar ákveðið að sækja Svíann unga til Newcastle og er tilbúinn að gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins.

Isak hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við á sínum ferli. Hann hóf atvinnumannaferilinn með AIK í Svíþjóð, fór þaðan til Borussia Dortmund í Þýskalandi, kíkti á lán til Willem II í Hollandi áður en hann Sociedad keypti hann. Newcastle yrði því fimmta liðið sem hann spilar fyrir síðan hann spilaði sína fyrstu meistaraflokks leiki árið 2016.

Newcastle hefur þrátt fyrir gríðarlegt fjármagn eigenda liðsins verið nokkuð rólegt á markaðnum í sumar. Nick Pope var keyptur frá Burnley, Sven Botman frá Lille og þá gekk félagið frá kaupum á Matt Targett eftir að hafa verið með hann á láni á síðustu leiktíð.

Það eru enn nokkrir dagar eftir af félagaskiptaglugganum og reikna má með að Newcastle sæki enn fleiri leikmenn áður en hann lokar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×