Súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs er hluti þeirra loftslagsbreytinga sem nú eru að eiga sér stað. Þær gerast hraðar á íshellunum en annars staðar í heiminum. Nýjustu rannsóknir benda til að bráðnunin á Grænlandsjökli gæti leitt til þess að sjávarborð hækki um allt að tæplega 30 sentimetra fyrir næstu aldamót.
Ef ekkert verður að gert benda verstu sviðsmyndir til að sjávarborð gæti hækkað um allt að tvo metra. Slík hækkun ásamt meira langvarandi óveðrum gæti haft miklar afleiðingar í för með sér á Íslandi eins og annars staðar í heiminum.

Árni Snorrason veðurstofustjóri segir að jafnvel þótt allri losun gróðurhúsalofttegunda yrði hætt í dag telji vísindamenn margar hörmulegar afleiðingar þegar orðnar óafturkræfar.

„Já það er mjög sláandi. Það er náttúrlega löngu ljóst í kringum snjó og ís í fjöllum, Ölpunum og víðar, að við erum löngu komin á þann stað að það verður mjög erfitt að snúa við,“ segir Árni.
Nú þegar væri gríðarlegur skortur á vatni í Evrópu og jarðvegur þurr. Snjósöfnun í Ölpunum væri með minnsta móti en bráðnunin með því mesta.
„Menn horfast bara í augu við að sumarið í sumar gæti verið áþekkt og í sviðsmyndum árið 2100,“ segir veðurstofustjóri.
Hækkun sjávarborðs fæli í sér miklar áskoranir hér á landi sem og annars staðar í heiminum þar sem byggileg strandsvæði væru að hverfa eins og í Bangladesh. Taka þurfi tillit til þessa við uppbyggingu innviða í Reykjavík og annars staðar á landinu.
„Það þarf auðvitað að leggja fram sviðsmyndir og áhættumat. Þannig að við stýrum landnotkun og okkar innviðum til að mæta þessum áskorunum. Þannig að viðbrögð okkar kosti sem minnsta fjármuni,“ segir Árni.
Unnið hafi verið að þessu með orkugeiranum í áratugi varðandi áhrif loftslagsbreytinga á vatnsbúskap, jökla og fleira. Þá hafi stjórnvöld stigið skref til uppbyggingar regluverks um aðlögun og lagt fram stefnu í hvítbók og unnið væri að aðgerðaráætlunum fyrir flest svið samfélagsins.
„En það er alveg klárt mál að sjávarstöðubreytingar eru eitt lykilmálið inn í framtíðina. En það eru líka breytingar á vatnafari, af- og frárennslismálum í sveitarfélögum sem verður mikil áskorun,“ segir Árni Snorrason.