Lögreglumennirnir þrír, þeir Nathan Vanderheyden, Kenneth Pengelly og Grason Cappus, eru almennir lögreglumenn hjá fylkislögreglu Ontario. Þeir hafa allir verið ákærðir fyrir manndráp og alvarlega vanrækslu í starfi sem leitt hafi til dauða hins atján mánaða gamla Jameson Shapiro.
Lögreglumennirnir þrír voru kallaðir út í nóvember 2020 í bænum Kawartha Lakes í Ontario vegna heimilisdeilna þar sem skotvopn var haft við hönd en grunur var um að Shapiro hafi verið numinn á brott af föður sínum.
Eftir að lögregla gerði tilraun til að stöðva föður drengsins keyrði hann á lögreglubíl og annan bíl. Lögreglumennirnir þrír hófu í kjölfarið skothríð að ökutæki föðursins. Jameson Shapiro, sem sat í aftursæti pallbílsins, varð fyrir skoti og var úrskurðaður látinn á vettvangi. Faðir hans lést af skotsárum viku síðar.
Eftirlitsstofnunin Special Investigations Unit, SIU, tilkynnti í gær að hún hefði tilefni til að ákæra lögreglumennina þrjá. Sérfræðingar á vegum Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, aðstoðuðu við rannsókn málsins. SIU hefur verið gagnrýnd fyrir rannsókn málsins, sérstaklega fyrir hvað hún ílengdist. Marga mánuði tók fyrir rannsakendur að taka skýrslu af lögreglumönnunum þremur, sem almennt telst ekki gott í rannsóknum sakamála.
Þrátt fyrir það munu lögreglumennirnir mæta fyrir dóm 6. október næstkomandi í borginni Lindsey í Ontario.