Viðskipti innlent

Sveinn Frið­rik nýr rekstrar­stjóri Arctic Trucks International

Atli Ísleifsson skrifar
Sveinn Friðrik Sveinsson starfaði áður sem fjármálastjóri hjá SFS.
Sveinn Friðrik Sveinsson starfaði áður sem fjármálastjóri hjá SFS. Aðsend

Sveinn Friðrik Sveinsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Arctic Trucks International ehf.

Í tilkynningu kemur fram að Sveinn hafi áður starfað sem fjármálastjóri hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og að hann hafi víðtæka reynslu af fjármálastjórn og störfum á fjármálamarkaði.

„Hann hefur meðal annars starfað sem fjármálastjóri Bílanausts, forstöðumaður verðbréfamiðlunar Virðingar og forstöðumaður fjárstýringar Straums fjárfestingarbanka.

Sveinn er með meistarapróf í fjármálum og löggildingu í verðbréfamiðlun, ásamt því að sitja í stjórn Vátryggingafélags Íslands sem varamaður. Hann hefur verið fjallabjörgunarmaður hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu frá árinu 2000,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að helstu verkefni Arctic Trucks International séu nýsköpun í þróun breytinga á jeppum til að bæta aksturseiginleika, drifgetu og rekstraröryggi.

„Þetta er meðal annars gert í samstarfi við bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Ford, Land Rover, Nissan, Isuzu, Mercedes-Benz og fleiri. Félagið gerir að auki sérleyfissamninga við félög í hverju landi sem annast breytingar fyrir hina ýmsu markaði.

Arctic Trucks er þekkt vörumerki á sínu sviði í heiminum og hafa lausnir fyrirtækisins skapað því mikla sérstöðu. Félagið rekur dótturfélag Bretlandi og hefur auk þess gert sérleyfissamninga við Arctic Trucks á Íslandi, Noregi, Finnlandi, Póllandi, Belgíu, Suður-Afríku, Sameinuðu arabísku fursta­dæmunum, Norður Ameríku og Arctic Trucks Polar sem annast ferðaþjónustu á pólsvæðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×