Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt beint úr geitahjörð á Brúnastöðum og rætt við bændurna, þau Hjördísi Leifsdóttur og Jóhannes Ríkharðsson. En hvernig nýta þau geitastofninn, sem núna telur um sjötíu geitur?
„Við erum að mjólka og gera geitaosta heima á býlinu. Hvað varðar geitamjólk þá erum við frumkvöðlar að því að gera geitaosta heima á býlinu sjálfu. Við erum þau fyrstu og einu ennþá á Íslandi,“ segir Hjördís.
Þau eru jafnframt komin með húsdýragarð.
„Geiturnar eru alveg einstaklega mannelsk dýr og hluti af þessum hópi hérna er í fullri vinnu allt sumarið í dýragarðinum, ásamt fleiri dýrum. Við erum með íslensku flóruna; refi, svín, hunda, hesta, kindur, hænur og kalkúna.
Og þetta er mjög vinsælt. Fjölskyldurnar koma hérna og börnin fá að kynnast dýrunum í návígi og klappa. Þannig að þetta virkar mjög vel,“ segir Jóhannes.
„Við erum með litla sveitabúð þar sem við erum að bjóða geitaostana okkar og allar afurðir býlisins líka,“ segir Hjördís.
Nánar í frétt Stöðvar 2 sem sjá má hér: