Innlent

1.200 börn á biðlista og fjöldi staða ómannaður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðeins er búið að fylla 75 prósent staða við frístundaheimilin.
Aðeins er búið að fylla 75 prósent staða við frístundaheimilin. Vísir

Alls hafa 3.368 börn fengið pláss á frístundaheimilum í Reykjavík í haust en 1.155 eru enn á biðlista. Enn hefur ekki tekist að manna nema 75 prósent staða á frístundaheimilunum og sértækum félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu en Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi á skóla- og frístundasviði, segir unnið hörðum höndum að því að fullmanna. 

Um sé að ræða hlutastörf og stór hluti starfsmanna séu námsmenn sem séu ekki tilbúnir til að festa sig í vinnu ákveðna daga fyrr en stundatöflur liggja fyrir.

Að sögn Hjördísar eru yngstu börnin í grunnskólum borgarinnar í forgangi og tekist hefur að bjóða þeim öllum pláss. Í sumum tilvikum hafi eldri börnum verið boðin hlutavistun, sem þýðir að þau mæta suma daga en aðra ekki. 

Hjördís segist vita til þess að sumir foreldrar hafi tekið sig saman og skiptist á um að annast börn og vini þeirra þá daga sem börnin komast ekki í frístund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×