„Okkar stærsta áskorun núna er vinnuaflið. Við erum að berjast um hvern haus sem hægt er að fá,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, í viðtali við Stöð 2, en álverið er stærsti vinnustaður Austurlands.
Smærri fyrirtæki glíma við sama vanda.
„Það vantar fólk í öll störf. Það vantar allsstaðar fólk hérna. Menn eru jafnvel að gefast upp á rekstri vegna þess að þeir hafa ekki mannskap,“ segir Samúel Karl Sigurðsson, framkvæmdastjóri K-Tech köfunarþjónustu á Reyðarfirði.
Garðyrkjustöðin Blómahornið á Reyðarfirði hefur átt í vandræðum með að fá starfsfólk í sumar. Eigandinn neyðist til að leita á náðir ættingja með aðstoð.
„Fjölskyldan er með. Karlinn kemur svo þegar hann er búinn í vinnunni sinni, klukkan fjögur,“ segir Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir, garðyrkjufræðingur í Blómahorninu.
Lára Björnsdóttir vinnur bæði hjá Umhverfisstofnun auk þess að hafa umsjón með tjaldsvæðum Fjarðabyggðar.
„Það er erfitt að fá starfsfólk í alla ferðaþjónustu. Það vantar húsnæði fyrir starfsfólk. Svo það er ekkert auðvelt að flytja inn starfsfólk annarsstaðar að,“ segir Lára.
Fyrirtækið Launafl greip til þess ráðs að kaupa hótel á Reyðarfirði til að hýsa starfsmenn.
„Keypti hér gistiheimili af Marlín, nítján herbergja eiginlega hótel, til þess að koma mannskapnum fyrir.“
-Það er bara svona mikill húsnæðisskortur?
„Húsnæðisskorturinn er gífurlegur og við erum að stækka það en dugar ekki til,“ segir Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri Launafls.
„Til að fá gott fólk, þá þarf það að geta búið einhversstaðar. Og það hefur verið umtalsverður skortur á húsnæði hérna fyrir austan,“ segir forstjóri álversins.
„Til dæmis á tjaldsvæðinu á Eskifirði hjá okkur, þar eru tveir ungir drengir sem tóku að sér umsjón með tjaldsvæðinu gegn því að fá að búa þar. En þeirra aðalstarf er í álverinu hérna, Fjarðaál,“ segir Lára.
„Það er verið að byrja að byggja íbúðir; á Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, Neskaupstað og Reyðarfirði. Þannig að þetta horfir núna til bóta. En þetta er okkar langstærsta ögrandi verkefni í dag,“ segir Einar Þorsteinsson hjá Fjarðaáli.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: