Viðskipti innlent

Soffía Theó­dóra nýr fjár­festinga­stjóri hjá Brunni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Soffía Theódóra Tryggvadóttir er nýr fjárfestingastjóri hjá Brunni.
Soffía Theódóra Tryggvadóttir er nýr fjárfestingastjóri hjá Brunni.

Soffía Theódóra Tryggvadóttir hefur verið ráðin fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures. Soffía Theódóra kemur til Brunns frá bandaríska Fortune 500 fyrirtækinu NetApp. Hjá Brunni mun Soffía Theódóra sinna greiningu og öflun fjárfestingatækifæra, byggja upp tengslanet við erlenda vísifjárfesta og starfa með stjórnendum og frumkvöðlum að lokinni fjárfestingu.

Hjá NetApp leiddi hún fyrst markaðssetningu félagsins á skýjalausnum þess, og bar síðar ábyrgð á uppbyggingu vörumerkisins á heimsvísu. Hún stofnaði einnig tímaritið Nordic Style Magazine árið 2012, sem er dreift víða bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Soffía Theódóra er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla.

Soffía Theódóra tekur við starfinu af Margréti Ormslev Ásgeirsdóttur sem hefur verið ráðin yfirmaður rekstrar hjá Transition Labs.

„Það er mikill fengur að fá Soffíu Theódóru í teymið en hún býr yfir mjög verðmætri reynslu, bæði sem stjórnandi í skráðu tæknifyrirtæki á Nasdaq og sem stofnandi og stjórnandi í sprotafyrirtæki,“ segir Árni Blöndal, fjárfestingastjóri og annar stofnenda Brunns.

Soffía Theódóra segist hlakka til að nýta reynslu sína úr alþjóðlegu umhverfi til þess að hjálpa íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

„Ég þekki vel til Brunns þar sem ég hef setið í stjórn Brunns vaxtasjóðs II frá stofnun og er ótrúlega spennt yfir því að ganga til liðs við fyrirtækið sem fjárfestingastjóri,“ segir Soffía Theódóra.

Brunnur Ventures er ábyrgðaraðili tveggja vísisjóða, Brunns vaxtasjóðs I og II, sem reknir eru í samstarfi við Landsbréf. Sjóðirnir eru samtals 13,3 milljarðar króna og að mestu fjármagnaðir af lífeyrissjóðum. Frá 2015 hafa sjóðirnir fjárfest í 20 íslenskum sprotafyrirtækjum sem búa yfir tækni og þekkingu sem hægt er að selja á erlendum mörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×