Erlent

Reyndu að stofna kín­verskt sjálf­stjórnar­svæði á Mars­hall-eyjum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sumar af eyjum Marshall-eyja eru ekki með byggð, þar á meðal sú eyja sem fólkið vildi byggja á.
Sumar af eyjum Marshall-eyja eru ekki með byggð, þar á meðal sú eyja sem fólkið vildi byggja á. Getty

Tveir Kínverjar voru nýlega ákærðir af yfirvöldum í Bandaríkjunum fyrir að múta þingmönnum og opinberum starfsmönnum á Marshall-eyjum til þess að reyna að stofna sjálfstjórnarsvæði fyrir Kína á afskekktri eyju. Eyjurnar var undir stjórn Bandaríkjanna til ársins 1979.

Fólkið, Cary Yan og Gina Zhou, voru handtekin í Taílandi árið 2020 en voru framseld til Bandaríkjanna í vikunni þar sem þau hafa verið ákærð fyrir að reyna að grafa undan sjálfstæði Marshall-eyja.

Þau eru grunuð um að hafa mútað ráðamönnum á eyjunum og borgað þeim allt að þrjár milljónir króna til þess að kjósa með því að fólkið fái að byggja á eyjunni. Þá fengu nokkrir þingmenn að fara út að borða með fólkinu og greiddar ferðir til útlanda.

Sá opinberi starfsmaður sem þáði hæstu múturnar gerði Yan að „sérstökum ráðgjafa“ eyjanna og kom því í gegn að bæði Yan og Zhou yrðu gerð að ríkisborgurum Marshall-eyja.

Árið 2018 var kosið um stofnun sjálfstjórnarsvæðisins en komst frumvarp þess efnis ekki í gegnum þingið eftir að þáverandi forseti landsins, Hilda Heine, sakaði þau um að starfa fyrir kínverska ríkið.

Heine tapaði forsetakosningunum í landinu árið eftir og þá komst það í gegn á þinginu að Yan og Zhou myndu fá að byggja á eyjunni. Stuttu síðar voru þau handtekin og ákærð fyrir spillingu, mútur og peningaþvætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×